Mikið tap var á rekstri Liverpool á síðustu leiktíð en þetta kemur fram í skýrslu félagsins sem nú hefur verið gerð opinber. Félagið tapaði 46 milljónum punda á síðasta rekstrarári sem endaði í maí 2020.
Búist er við að miklu meira tap verði á rekstri félagsins á þessu rekstrarári vegna COVID-19 veirunnar. Talið er að Liverpool muni tapa 120 milljónum punda yfir það heila vegna veirunnar.
Félagið hafði hagnast verulega árið áður og er sveiflan um 88 milljónir punda. Liverpool varð enskur meistari síðasta sumar.
Tímabilið í fyrra var sett í pásu í mars vegna veirunnar en fór aftur af stað fyrir luktum dyrum um sumarið.
Auglýsingatekjur Liverpool voru í 217 milljónir punda og jukust um 29 milljónir punda, tekjur vegna sjónvarpsréttar lækkuðu um 59 milljónir punda og voru 202 milljónir punda. Tekjur vegna heimaleikja lækkuðu um 13 milljónir punda og voru 71 milljón punda.
Laun félagsins hækkuðu þá hressilega og fóru úr 310 milljónum punda í 325 milljónir punda á síðasta rekstrarári.