Íslenska u-21 árs landsliðið spilaði í kvöld sinn síðasta leik á Evrópumótinu gegn Frakklandi. Leiknum lauk með 2-0 sigri Frakka en leikið var í Györ í Ungverjalandi.
Íslenska liðið byrjaði af krafti og var betri aðilinn fyrstu mínúturnar en það voru hins vegar Frakkar sem komust yfir í leiknum.
Á 17. mínútu skoraði fyrirliði liðsins, Matteo Guendouzi, fyrsta mark leiksins og kom Frökkum yfir.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 38. mínútu þegar að Odsonne Édouard, tvöfaldaði forystu Frakka.
Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og þar með lauk þátttöku Íslands á Evrópumótinu í þetta skipti. Ísland endar í neðsta sæti G-riðils án stiga, liðið skoraði 1 mark á mótinu og fékk á sig 7 mörk.
Ísland 0 – 2 Frakkland
0-1 Matteo Guendouzi (’17)
0-2 Odsonne Édouard (’38)