Það er ljóst að Jóhann Berg Guðmundsson og Ragnar Sigurðsson munu ekki spila alla leiki íslenska landsliðsins í verkefninu sem er að hefjast. Íslenska liðið hefur leik í undankeppni HM á morgun gegn Þýskalandi, síðan taka við leikir gegn Armeníu og Liechtenstein.
Leikirnir eru spilaðir yfir sex daga og leikmenn sem hafa verið í meiðslum líkt og Jóhann Berg ráða ekki við slíkt álag. Ragnar Sigurðsson hefur einnig spilað lítið í Úkraínu og mun ekki spila alla þrjá leikina.
„Það er hárrétt, við erum ekki að fara að nota Jóa í þremur leikjum í þessu glugga. Hann er ekki sá eini, hann er ekki sá eini sem verður ekki notaður í þremur leikjum. Það er mikilvægt fyrir öll landslið í dag að stýra álaginu mjög vel, hvort að hann spili eitthvað á morgun eða ekki. Ég vil ekki gefa það út, ég vona að sjálfsögðu að við getum notað Jóa á morgun,“ sagði Arnar Þór á fréttamannafundi í dag.
Ragnar Sigurðsson lék 45 mínútur á dögunum en það voru fyrstu mínúturnar sem Ragnar lék með félagsliði frá því í september á síðasta ári.
„Raggi hefur ekki mikla leikæfingu núna, hann spilaði fyrir tveimur vikum sinn fyrsta leik. Vikuna þar á eftir var leiknum frestað, Raggi er ekki í mikilli leikæfingu. Það er ekki bara leikæfing sem skiptir, liðið og leikmenn hafa svo mikla reynslu í bakpokanum að það eru ekki allir sem þurfa að vera í mikilli leikæfingu og leikformi til að spila. Hvort sem það er einn, tvo eða þrjá. Raggi er einn af þeim sem getur ekki spilað þrjá leiki í þessum glugga.“