Dortmund komst áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í gær eftir samanlagðan 5-4 sigur á spænska liðinu Sevilla. Liðin mættust í Þýskalandi í gær og það var Erling Braut Haaland sem kom Dortmund yfir með marki á 35. mínútu.
Hann var síðan aftur á ferðinni er hann bætti við öðru marki Dortmund á 54. mínútu úr vítaspyrnu. Youssef En-Nesyri minnkaði muninn fyrir Sevilla með marki úr vítaspyrnu á 69. mínútu og hann var síðan aftur á ferðinni í uppbótartíma er hann jafnaði leikinn fyrir Sevilla.
Nær komst Sevilla þó ekki. Dortmund er því komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu með samanlögðum 5-4 sigri úr einvíginu.
Seinna mark Haaland var hans 20 mark í Meistaradeildinni, norska undrabarnið þurfti aðeins 14 leiki til að skora 20 mörk í deild þeirra bestu. Harry Kane átti fyrra met en hann þurfti 24 leikitil að skora sín fyrstu 20 mörk í keppninni.
Alessandro Del Piero tók sér 26 leiki í að skora 20 mörk og Ruud van Nistelrooy tók sér leik meira til þess að skora sín 20 mörk.