Þórður Guðjónsson fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu og landsliðsmaður Íslands gerir upp feril sinn í skemmtilegu viðtali við Jóhann Skúla í Draumaliðinu.
Þórður lék í þrettán ár sem atvinnumaður og lék 58 A-landsleiki fyrir Ísland. Þórður átti góð ár í Þýskalandi með Bochum. Einn leikur sem vekur upp minningar er leikur þar sem Sunday Oliseh ætlaði að drepa Vahid Hashemian samherja sinn hjá Bochum.
Þeir byrjuðu að takast á inn á vellinum, rasísk ummæli féllu og Þórður kom á milli þeirra. Síðan þegar það er flautað til hálfleiks þá sprettir Hashemian inn í klefann og Oliseh á eftir. Þeir voru fyrstir inn og Þórður reynir að hlaupa á eftir þeim en heyrir bara hurðina skellast og læsast að klefanum.
„Ég var að spila þennan leik, síðan eru orðaskipti þeirra á milli. Þetta eru ólíkir menningarheimar að mætast, virðing er á öðru stigi en við þekkjum. Ég sé að Íraninn, Hashemian hleypur í átt að klefanum um leið og það er flautað og þá tekur Oliseh straujið á eftir honum. Ég fer á eftir því ég ýtti þeim aðeins til hliðar á vellinum þegar þetta kemur upp,“ sagði Þórður í Draumaliðinu.
Sunday Oliseh átti frábæran feril með Ajax, Juventus og Dortmund en var á seinni stigum ferilsins í Bochum. Hann kemur frá Nígeríu og var reiður út í samherja sinn.
Þórður heyrði svo bara öskur þegar hann stóð fyrir utan hurðina. „Ég er rétt að koma að klefanum þegar hann skellur í lás, svo heyri ég bara öskur. Lem á hurðina, þá kemur nuddari sem var þarna inni og opnar. Við stökkum þrír á Oliseh, þá hafði hann vaðið í hann og skallað hann. Hann ætlar í hann áfram, gaurinn nefbrotinn og alblóðugur. Það voru tvær skiptingar í hálfleik hjá okkur, einn meiddur og hinn brjálaður.“
Eftir atvikið var Oliseh gert að fara frá Bochum. „Oliseh þurfti að fara, Hashemian var einn besti framherji deildarinnar og var markahæstur.“