Wayne Rooney knattspyrnustjóri Derby hefur greint frá því að ungstirni félagsins, Kaide Gordon sé að ganga í raðir Liverpool. Hann er svekktur en kveðst varnarlaus, ekkert sé hægt að gera þegar stóru liðin koma.
Gordon er 16 ára leikmaður sem hefur spilað með Derby á þessu tímabili en hann hefur vakið mikla athygli í unglingaliði Derby.
Derby hefur reynt allt til þess að fá Gordon til að gera lengri samning en hann hefur kosið að fara til Liverpool.
„Hann virðist vera á leið til Liverpool, þegar Englandsmeistararnir koma þá er erfitt að hafna því,“ sagði Rooney um þennan hæfileikaríka kantmann frá Englandi.
„Kaide er frábær leikmaður, ég fékk hann inn í aðalliðið því ég sé hvað hann er góður. Hann er ungur og hefur lengi verið með tilboð frá okkur. Hann hefur ekki viljað skrifa undir.“
„Liverpool vissi af þessu og hafa stigið inn, það er erfitt fyrir leikmenn að hafna Liverpool. Ég skil það vel. Ef eitthvað af stóru liðum ensku úrvalsdeildarinnar koma, þá er þetta erfið staða.“