Amanda Andradóttir hefur skrifað undir þriggja ára samning við besta lið Noregs, Vålerenga. Frá þessu er greint á heimasíðu félagsins.
Amanda sem varð 17 ára gömul á dögunum kemur til Vålerenga frá FC Nordsjælland í Danmörku þar sem hún lék á síðasta ári.
Amanda þekkir vel til í Noregi en hún bjó þar um langt skeið, móðir hennar er norsk en faðir hennar er fyrrum landsliðsmaðurinn , Andri Sigþórsson.
„Þetta er rétta skrefið fyrir mig, ég vil æfa og spila með þeim bestu,“ sagði Amanda eftir að hafa skrifað undir en Vålerenga vann deild og bikar á þessu ári. Ingibjörg Sigurðardóttir leikur með Vålerenga og var besti leikmaður liðsins á tímabilinu.
Amanda er uppalinn Valsari en hún hefur leikið fyrir yngri landslið Íslands, hún á þann kost að spila fyrir landslið Noregs.
„Vålerenga hefur mikinn metnað og góða aðstöðu, það var freistandi að koma aftur til Noregs eftir að hafa verið hér sem barn,“ sagði Amanda.