Á vefsíðunni GoFundMe er byrjað að safna fjármunum fyrir Jake Hepple og unnustu hans eftir að þau voru rekin úr vinnu sinni í vikunni.
Það vakti reiði margra í vikunni þegar flugvél flaug yfir Etihad völlinn rétt áður en flautað var til leiks í leik Manchester CIty og Burnley í fyrradag. Flugvélin dró á eftir sér borða og á honum stóð „White Lives Matter Burnley“.
Leikmenn í úrvalsdeildinni hafa staðið saman eftir að deildin fór af stað á ný og bera nafn Black Lives Matter herferðarinnar á bakinu. Hepple stuðningsmaður Burnley og meðlimur í English Defence League er ábyrgur. Hann er félagi Tommy Robinson sem er umdeildur í Bretlandi fyrir skoðanir sínar. Um er að ræða öfga hægrisamtök þar sem þeir mótmæla harðlega framgöngu múslima í landinu. „Ég vil nota tækifærið og biðja engan afsökunar,“ sagði Hepple og virðist ekki sjá eftir neinu.
Mikil reiði hefur skapast í kringum þennan borða og var Hepple og unnustu hans sagt upp í vinnunni á þriðjudag. Hepple sat í fangelsi í tæp fjögur ár eftir slagsmál við stuðningsmann Blackburn árið 2011.
Nú vilja stuðningsmenn parsins safna fyrir þeim og eru nú þegar komnar um 400 þúsund krónur í söfnun til þeirra.