KSÍ skoðar nú hvort sambandið refsi Þór á Akureyri eftir að leikmenn og þjálfari liðsins mættu með derhúfu í viðtöl um helgina, þar sem erlendur veðbanki var auglýstur. Tveir leikmenn Þórs sem og þjálfari liðsins, Páll Viðar Gíslason, mættu í viðtöl með derhúfu merkta veðmálafyrirtækinu Coolbet eftir sigur á Grindavík um helgina.
Samkvæmt íslenskum lögum er með öllu óheimilt að auglýsa erlenda veðbanka en atvikið átti sér stað eftir leik í Lengjudeildinni.
KSÍ minnti á reglurnar:
Knattspyrnusambandið birti frétt á vefsíðu sinni í gær þar sem minnt er á reglur sambandsins er varðar veðmál. „Aðildarfélag skuldbindur sig til að vinna gegn ólöglegri veðmálastarfsemi og hagræðingu úrslita leikja. Aðilum sem taka þátt í knattspyrnuleikjum á vegum KSÍ er óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Bann þetta tekur einnig til miðlunar upplýsinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál og fela í sér fjárhagslegan ávinning. Leikmanni, forsvarsmanni félags eða starfsmanni leiks eða félags sem leitað er til af aðila sem hefur í hyggju að hafa óeðlileg afskipti af úrslitum leikja með aðstoð framangreindra aðila ber skylda til þess að tilkynna slíkt tafarlaust til skrifstofu KSÍ;“ segir í reglum KSÍ.
Samkvæmt reglum KSÍ má því vera augljóst að Þór hafi brotið reglur sambandsins með því að auglýsa þennan erlenda veðbanka.
Þórsarar með derhúfu í viðtölum eftir leik sem líklega einhverju skilar í kassann. pic.twitter.com/3sNGPPgs8W
— Tómas Þór Þórðarson (@tomthordarson) June 19, 2020
Fréttamaður RÚV er formaður Þórs:
Þórsarar hafa hingað til ekki vilja tjá sig um málið en Óðinn Svan Óðinsson formaður knattspyrnudeildar Þórs hefur ekki svarað fjölmiðlum. Óðinn er fréttamaður RÚV á Norðurlandi. „Var að velta fyrir mér afhverju RÚV er eini miðillinn sem hefur ekki fjallað um lögbrot Þórs um helgina. Svo mundi ég að það eru óheppilegir hagsmunaárekstrar því fréttamaður RÚV á Akureyri og formaður Þórs er sami maðurinn,“ skrifar Hafliði Breiðfjörð eigandi Fótbolta.net á Twitter í dag.
Óðinn Svan vildi ekki ræða málið við DV og fleiri fréttamenn hafa ekki fengið Óðinn til að ræða málið. „Sami maður neitar síðan að gefa viðtal. Fréttamaður neitar að gefa fréttaviðtal. Þetta er allt svo eðlilegt,“ skrifar Henry Birgir Gunnarsson á Vísir.is.
Óðinn Svan er með talsverð reynslu í fjölmiðlum en hann hefur starfað á DV, Nútímanum og nú á RÚV en hann er í fæðingarorlofi þessa dagana.