Hörður Magnússon, fyrrum íþróttafréttamaður íhugar að leita réttar síns vegna ásakana um að hann væri að sigla undir fölsku flaggi á Twitter. Málið kom upp um liðna helgi en Hugi Halldórsson greinir frá þessu í hlaðvarpsþættinum Fantasy Gandalf.
Í samtali við DV sagðist Hörður vera að skoða næstu skref en vísar því á bug að hann hafi ákveðið að fara í meiðyrðamál.
Öll spjót beindust að Herði um helgina þegar fyrrum samstarfsmenn og fleiri fóru að saka hann um að sigla undir fölsku flaggi á samfélagsmiðlinum Twitter. Garðar Örn Arnarson pródúsent á Stöð2 benti fyrstur á þetta og grunaði Hörð um að notast við aðgang sem kallar sig Ásgeir. Skömmu eftir að hafa velt þessu upp þá skrifaði Garðar. „Staðfest,“ og fullyrti þar að um Hörð væri að ræða.
„Ekki veit ég hve lágt er hægt að leggjast en því miður virðist botninn vera endalaus,“ skrifaði Hörður í færslu á Facebook um helgina
Meira:
Höddi Magg bálreiður eftir þungar ásakanir: „Því miður virðist botninn vera endalaus“
Hugi segist hafa rætt við Hörð í vikunni og hann íhugi að leita réttar síns. „Ég hringdi í Hödda og hann talaði um að hann væri að leita sér lögfræði aðstoðar, þetta væri meiðyrðamál,“ sagði Hugi.
Hugi var ekki vel inn í málinu fyrr en hann hafði rætt við Hörð. „Ég vissi ekki almennilega af þessu fyrr en ég talaði við Hödda, ég skil alveg að einhver vilji meina þetta, það er bara verið að likea það sem tengist syni Hödda Magg og það sem Höddi Magg hefur verið að segja. Svo er hann að hrósa ákveðnum aðilum innan Sýn sem hann hefur unnið með. Mér finnst líka mjög skrýtið að halda þessu fram.“
Guðjón Þórðarson einn besti þjálfari í sögu Íslands var í þætti Huga og hafði þetta að segja. „Það er eitt að halda og annað að halda því fram, ef þú heldur það er það enginn vissa,“ sagði Guðjón.