Forráðamenn Dortmund segja að Jadon Sancho verði áfram hjá félaginu á næstu leiktíð og fari því ekki til Manchester United eins og rætt hefur verið um.
Sancho hefur verið sterklega orðaður við Manchester United síðustu vikur og mánuði en hann er sagður vilja fara. Kórónuveiran hefur breytt landslagi fótboltans og ekki öruggt að neitt félag geti borgað um 100 milljónir punda fyrir leikmann.
„Það er mikið rætt um Jadon en við höfum rætt þetta og hreinsað loftið. Eins og staðan er í dag vinnum við út frá því að hann verði hér á næstu leiktíð. Það er ekkert til í þessum sögum,“ sagði Sebastian Kehl í stjórn félagsins.
Enska götublaðið THe Sun segir möguleika á því að Sancho fari aftur til Manchester City en hann kom til Dortmund frá City.
Sancho er tvítugur enskur landsliðsmaður sem slegið hefur í gegn í Þýskalandi síðustu tvö ár.