Marcus Rashford framherji Manchester United lætur að sér kveða utan vallar þessa dagana og berst fyrir því að börn á Englandi þurfi ekki að upplifa svengd. Á meðan kórónuveiran lokaði öllum skólum í Bretlandi fór Rashford að sjá til þess að börn yrðu ekki svöng þegar þau gátu ekki farið í skólann og fengið mat.
Mörg börn í Bretlandi treysta á heita máltíð í skólanum en Rashford safnaði 20 milljónum punda til að fæða börn sem ekki eiga vel stæða foreldra.
Rashford sjálfur kemur af heimili þar sem lítið var um fjármuni og mamma hans þurfti að berjast við því að Manchester United tæki hann ári fyrr inn í félagið. „Móðir mín var einstæð, hún var með fimm börn. Það sem ég byrjaði á að gera 11 ára hjá Manchester United var eitthvað sem á ekki að byrja fyrr en þú ert tólf ára,“ sagði Rashford.
„Þér er reddað húsnæði nær æfingasvæðinu, ferð í nýjan skóla. Mamma barðist fyrir því að ég færi fyrr en í þetta, hún vissi að þetta væri nauðsynlegt.“
„Ég varð að borða réttan mat, ég var að stækka og ég þurfti að vera nær liðsfélögum mínum. Ég þurfti að fara í nýjan skóla. United gaf grænt ljós á þetta. Ég fór yngri þarna inn en aðrir, mamma lagði mikla áherslu á það. Það þarf að fórna til að komast á meðal þeirra bestu.“