Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sína menn í kvöld eftir 3-0 sigur á Gróttu.
Um var að ræða fyrsta keppnisleik Blika í sumar og hefði liðið getað skorað töluvert fleiri mörk en þeir gerðu.
,,Það kannski rétt að mörkin hefðu getað verið fleiri en ég ætla ekki að kvarta. Ég var ánægður með að halda hreinu og margar sóknir voru fínar. Ég hefði kannski viljað aðeins meira frá okkur mér fannst við detta töluvert niður þegar þeir missa manninn útaf,“ sagði Óskar.
Óskar ræddi svo Kristinn Steindórsson sem komst loksins á blað eftir langa markaþurrð.
,,Kristinn er frábær viðbót við þennan hóp, hann kemur inn með ákveðinn þroska og var hluti af liðinu sem vann þessa tvo titla karla megin. Frábær drengur og frábær fótboltamaður og vonandi verður áframhald á að hann geri það sem hann er bestur í, að skora fyrir Breiðablik.“
,,Maður myndi helst vilja fulla ferð allar 90 mínúturnar en í ljósi aðstæðna þá þarf maður líka að halda ákveðinni jarðtengingu og vera sanngjörn.“
Thomas Mikkelsen komst á blað í kvöld en hann var þó ansi oft dæmdur rangstæður. Óskar var spurður út í hvort hann myndi ræða við Danann.
,,Þið vitið það að Thomas lifir á línunni og stundum er hann einum millimetra fyrir innan og stundum ekki og það hefði ekki þurft mikið til að hann myndi skora 4-5 mörk í dag. Ég ætla ekkert að fara að segja Thomas Mikkelsen hvar hann á að standa.“