Ríkisstjórn Bretlands hefur gefið grænt ljós á það að íþróttafélög hefji æfingar að fullum krafti.
Í rúma viku hafa lið á Englandi getað æft í litlum hópum en nú er leyfilegt að setja allt á fullt. Leikmenn þurfa ekki lengur að virða tveggja metra regluna.
Enska úrvalsdeildin mun funda um málið á morgun og ræða við fyrirliða félaganna um að hefja æfingar að fullum krafti. Á miðvikudag munu svo félögin kjósa um hvort það verði gert eftir samtöl við leikmenn.
Eitt af því sem þarf að leysa er hvar leikirnir verða spilaðir, mörg félög vilja spila á heimavelli sínum en það gæti reynst erfitt.
Lögreglan hefur viljað að spilað sé á hlutlausum völlum svo hægt sé að koma í veg fyrir að stuðningsmenn hópist saman fyrir utan vellina. Verður það rætt í vikunni á meðal félaganna í deildinni.