Carlo Ancelotti, stjóri Everton, mætir sínu fyrrum félagi í dag er Everton heimsækir Chelsea í úrvalsdeildinni.
Ancelotti var rekinn frá Chelsea árið 2011 en áður en hann fór þá eyddi hann ógleymanlegu kvöldi með leikmönnum liðsins.
Það var skipulagt af Ashley Cole sem var þá í eigu Chelsea og spilaði vel undir Ítalanum.
,,Allur hópurinn var þarna. Ég vissi að þetta yrði minn síðasti leikur og vinir mínir frá Ítalíu komu í heimsókn,“ sagði Ancelotti.
,,Í rútunni á leiðinni heim þá vissu leikmennirnir að ég hefði verið rekinn og Ashley Cole sagði að við þyrftum að skella okkur út á lífið.“
,,Ég sagði nei því það voru tíu vinir mínir í heimsókn og að það væri matarboð heima hjá mér.“
,,Ashley neitaði því og bauð þeim öllum með. Hann sendi rútu heim til mín til að ná í okkur og þetta kvöld var ógleymanlegt.“