Manchester United hefur staðfest kaup sín á Bruno Fernandes frá Sporting Lisbon. Hann skrifaði undir fimm og hálfs árs samning með möguleika á auka ári.
United samdi um kaupverðið við Sporting Lisbon í gær og greiðir félagið 46,6 milljónir punda til að byrja. Líklega hækkar sú tala um 8,5 milljónir punda en einnig er klásúla um 12,7 milljónir punda ef United vinnur stóra titla, eins og Meistaradeildina.
,,Við höfum fylgst með Bruno í marga mánuði, það hafa allir hér h rifist af honum og hans hæfileikum,“ sagði Solskjær eftir kaupin á Bruno.
,,Það sem skiptir líka mestu máli er að hann er mögnuð persóna, frábær persónuleiki og er leiðtogi, það sjá allir.“
,,Mörkin og stoðsendingar hans tala sínu máli svo, hann er frábær viðbót við okkar lið og mun hjálpa okkur á seinni hluta tímabilsins. Vetrarfríið kemur á fullkomnum tíma til að koma Bruno inn í hópinn.“