Það er krísa í Guttagarði, stuðningsmenn Everton eru gjörsamlega brjálaðir eftir frammistöðu liðsins gegn Liverpool á sunnudag. Liverpool mætti með varalið sitt til leiks en vann sigur á Everton í enska bikarnum.
Carlo Ancelotti er að koma sér inn í starfið og fjalla ensk blöð um að leikmenn Everton séu farnir að efast um ágæti hans, hann sé ekki að spila leikmönnum rétt og er talað um að leikmenn vilji Duncan Ferguson aftur til starfa.
Fabian Delph, miðjumaður liðsins var reiður eftir leik og fór að skoða innhólfið sitt á Instagram. Hann hefði betur sleppt því og hvað þá að fara í það að svara stuðningsmönnum.
Everton ætlar að ræða við Delph um viðbrögðin, hann hefði betur sleppt því að ræða við stuðningsmenn á þessum nótum.
,,Ef þú værir fyrir framan mig, þá myndir þú ekki segja eitt orð. Þú myndir biðja mig um mynd,“ sagði Delph við stuðningsmanninn.
,,Fávísi ungi maður,“ sagði Delph við annan mann.