Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Istanbúl:
„Þeir eru búnir að gera mjög vel að ná fjórum stigum gegn Frökkum. Það eina í stöðunni fyrir okkur er að ná sigri gegn Tyrkjum og Moldóvu og vona að Andorra hjálpi okkur,“ sagði Kári Árnason á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Tyrkjum á morgun.
Eins og komið hefur fram verður íslenska liðið að vinna á morgun til að eiga möguleika á að tryggja sig beint í lokakeppni Evrópumótsins næsta sumar. Sigur dugar ekki einu sinni svo lengi sem Tyrkir vinna Andorra í síðasta leik sínum á útivelli á sunnudag. Tyrkir og Frakkar eru í efstu sætunum með 19 stig; Tyrkir eru ofar vegna betri árangurs í innbyrðisleikjum gegn Frökkum. Ísland er svo í þriðja sæti með 15 stig.
Fari svo að Ísland vinni Tyrkland og Moldóvu og hið ólíklega gerist að Andorra vinni Tyrki eða geri jafntefl fer Ísland beint í lokakeppnina. Andorra hefur áður velgt Tyrkjum undir uggum, en í leik liðanna á heimavelli Fenerbache í október unnu Tyrkir afar nauman sigur. Lokatölur í þeim leik voru 1-0 en Cenk Tosun, framherji Everton, skoraði sigurmarkið þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.
Kári sagði að Íslendingar ætluðu sér sigur á morgun, sama hvað. „Vonandi verður ekki partý í Istanbúl á morgun og við munum gera okkar besta til að tryggja að það gerist ekki. Þeir þurfa bara eitt stig og hafa tvö tækifæri til að ná í þau en við höfum eitt tækifæri til að vinna tvo leiki. Líkurnar eru á móti okkur en við höfum ekki gefist upp.“