Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Istanbúl:
Mikael Neville Anderson gæti komið við sögu í sínum fyrsta keppnisleik fyrir íslenska liðið þegar liðið mætir Tyrkjum og Moldóvum í undankeppni EM.
Mikael Neville er fæddur árið 1998 en hann hefur spilað einn A-landsleik fyrir Ísland. Sá leikur kom gegn Indónesíu á síðasta ári í 6-0 sigri. Mikael var í byrjunarliðinu í þeim leik en var skipt út af eftir 63 mínútur. Mikael á þrettán leiki að baki með U21 árs landsliðinu þar sem hann hefur verið lykilmaður að undanförnu.
Undirritaður spurði Erik Hamrén hvernig Mikael Neville hefði staðið sig á æfingum síðan íslenska liðið kom saman.
„Við höfum ekki séð mikið af honum því hann og nokkrir aðrir voru að spila á sunnudag, svo var endurheimt á mánudag og æfing í gær, þriðjudag. En það var tveimur dögum eftir leikinn. Hann hefur litið vel út það, miðað við það sem ég hef séð, en við höfum ekki séð hann á 100% æfingu,“ sagði Hamrén um þennan efnilega leikmann sem hefur verið að gera góða hluti hjá Midtjylland í Danmörku.