Einar Þór Sigurðsson skrifar frá Istanbúl:
Það er ljóst að mikið mun mæða á íslenskum áhorfendum á Turk Telekom-vellinum í Istanbúl á morgun ætli þeir sér að láta í sér heyra. Íslendingar verða nefnilega í miklum minnihluta á áhorfendapöllunum.
Völlurinn tekur rúmlega 52 þúsund áhorfendur og er orðið uppselt á leikinn fyrir löngu. Samkvæmt Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, er von á 39 Íslendingum á völlinn. Hér er væntanlega um að ræða þá sem fengu miða í gegnum KSÍ.
Það má búast við gríðargóðri stemningu á vellinum annað kvöld enda geta Tyrkir tryggt sér farseðilinn í lokakeppni Evrópumótsins með jafntefli eða sigri.