Senol Gunes, landsliðsþjálfari Tyrkja, er kokhraustur fyrir leikinn gegn Íslendingum á morgun. Tyrkjum dugar eitt stig úr leiknum til að gulltryggja sig inn í lokakeppni EM næsta sumar, en sigur í síðustu tveimur leikjunum tryggir þeim sigur í riðlinum.
„Við viljum afreka það sem við höfum aldrei gert áður. Vil viljum komast í lokakeppnina sem toppliðið í okkar riðli,“ segir Gunes í leikskrá fyrir leikinn á morgun.
Gunes bendir á að Íslendingar hafi oft reynst Tyrkjum erfiður ljár í þúfu á undanförnum árum, enda Ísland unnið þrjá leiki í röð gegn Tyrkjum.
„Eini tapleikurinn okkar í riðlinum kom gegn þeim en núna er andrúmsloftið allt annað. Það er mikill munur á aðstæðunum núna og aðstæðunum í júní,“ segir Gunes. Á hann við þá staðreynd að Tyrkir eru á heimavelli og geta umfram allt tryggt sér sæti í lokakeppni EM á morgun.
„Stærsti munurinn verður stuðningurinn frá þeim sem mæta á völlinn á morgun. Við viljum að þið sjáið sigur og upplifið saman draum tyrknesku þjóðarinnar um að komast í lokakeppni EM.“