Kjartan Henry Finnbogason, framherji Vejle í Danmörku skrifar minningargrein um bróður sinn á Instagram í dag. Það er Íslendingavaktin sem segir frá málinu.
Kjartan minnist þar bróður síns, Hallgríms Þormarssonar sem féll frá á dögunum. Kjartan skoraði fyrir Vejla skömmu eftir fráfall Hallgríms og tileinkaði honum markið.
Hallgrímur var borinn til grafar í vikunni og Kjartan skrifar fallega grein um bróður sinn.
,,Elsku bróðir, það er ólýsanlega sárt að þurfa að kveðja þig í hinsta sinn, allt allt of snemma. Þú varst alltaf svo duglegur og klár,“ skrifar Kjartan sem hefur gert það gott sem atvinnumaður í fótbolta og reglulega komið við sögu hjá íslenska landsliðinu.
Kjartan var stoltur af bróður sínum, hann var duglegur að segja fólki frá honum. ,,Ég man hvað ég montaði mig oft af þér þegar að ég var yngri. Duglegur að læra og agaður bílatöffari. Þú hafðir óbilandi mikinn metnað í öllu sem að þú tókst þér fyrir hendur og fórst yfirleitt alla leið.“
Kjartan mun aldrei gleyma Hallgrími og þakkar honum fyrir að hafa stutt sig í einu og öllu. ,,Ekki síst hafðir þú metnað fyrir mína hönd. Takk fyrir að passa mig, takk fyrir að tuska mig til en fyrst og fremst takk fyrir að vera stóri bróðir minn. Ég mun aldrei gleyma þér. Hvíldu í friði.“
Markið og fagn Kjartans má sjá hér að neðan.