Enginn Íslendingur varð meistari í Svíþjóð þetta árið en lokaumferð sænsku deildarinnar fór fram í dag.
Það er Djurgarden sem fagnar meistaratitlinum og vinnur deildina með einu stigi eftir jafntefli við Norrkoping.
Djurgarden lenti 2-0 undir gegn Norrkoping í lokaumferðinni en tókst að lokum að ná í jafntefli sem dugði til.
Arnór Ingvi Traustason komst á blað fyrir Malmö sem endar í öðru sætinu, einu stigi á eftir Djurgarden.
Malmö vann sannfærandi 5-0 útisigur á Orebro en tap nýlega gegn Hammarby kostaði liðið titilinn.
Kolbeinn Sigþórsson komst þá á blað fyrir lið AIK sem lék við Sundsvall á heimavelli.
Tímabil AIK verður þó að teljast sem vonbrigði en liðið hafnaði í fjórða sæti deildarinnar sem gefur ekki Evrópusæti.
Kolbeinn komst í fréttirnar í gær en talað var um að hann hefði verið handtekinn eftir ólæti á skemmtistað. Hann skoraði fyrra markið í 2-1 sigri á Sundsvall.