Claudio Marchisio, fyrrum miðjumaður Juventus og eiginkona hans vöknuðu upp við vondan draum. Fjórir grímuklæddir menn mættu þá heim til hans. Um var að ræða innbrotsþjófa sem mættu og sópuðu til sín verðmætum af heimilinu. Þeir ógnuðu Marchisio og eiginkonu hans.
Þeir tóku úr, skartgripi og peninga. Lögreglan mætti á svæðið en þá voru ræningjarnir farnir á brott. Marchisio er 33 ára og flutti nýlega aftur til Ítalíu, eftir að hafa verið í Rússlandi um nokkurt skeið.
Hann hefur lagt skóna á hilluna eftir frábæran feril en fjölskyldan er sögð í áfalli. ,,Þeir settu byssurnar að höfði okkar,“ sagði Marchisio sem þakkar fyrir að börnin hafi ekki verið heima.
,,Við náðum að halda haus, þetta voru fimm einstaklingar. Þeir spurðu hvar við geymdum verðmæti, hvar skápurinn væri. Við erum ekki með neitt slíkt.“
,,Þeir leituðu út um allt, ég var hræddur um mig og konu mína. Ég þakka guði fyrir að börnin hafi ekki verið heima, þau voru á fótboltaæfingu. Afi þeirra hafði ekki komið með þau til baka.“