

Steve Stone, þjálfari varaliðs Burnley hefur verið settur í leyfi. Hann er sakaður um að leggja leikmenn félagsins í einelti. Stone sem er 48 ára og fyrrum enskur landsliðsmaður hefur ekki stýrt Burnley, í síðustu tveimur leikjum.
Stone er afar náinn Sean Dyche, stjóra Burnley en þeir léku saman á ferli sínum. Ítrekað hefur það komið upp síðustu ár að þjálfarar á Englandi eru settir til hliðar, vegna eineltis.
Burnley hefur ekki viljað svara til um málið, en ensk blöð segja að fleiri en einn leikmaður hafi kvartað til félagsins vegna framkomu Stone.
Enska sambandið hefur beðið Burnley um að fá að fylgjast með rannsókn málsins. Möguleiki er á að Stone verði rekinn úr starfi.