

Gary Martin var gestur í hlaðvarpsþættinum 90 mínútur fyrr í vikunni en þar fór hann yfir ansi skrautlegan og góðan feril
Gary spilar í dag fyrir ÍBV en hann vann gullskóinn í sumar eftir að hafa skorað heil 12 mörk fyrir ÍBV sem féll.
Gary tjáði sig ítarlega um tímann hjá ÍBV og þá undarlegu ákvörðun að semja við félagið fyrr á árinu.
Það kom mörgum á óvart þegar Gary fór til Eyja en liðið var í miklu veseni þegar hann mætti þangað.
Valur leysti Gary undan samningi og ákvað hann í kjölfarið að taka skrefið til Vestmannaeyja.
,,Tíminn var ótrúlegur. Þegar ég var 21 árs gamall þá sagði ég að ég myndi aldrei búa þarna,“ sagði Gary.
,,Alveg frá því að ég kom fyrst þá hugsaði ég með mér að ég vildi vera þarna, það voru Englendingar þarna, fólkið var frábært og strákarnir í búningsklefanum horfðu aðeins upp til mín.“
,,Allir þessir krakkar vilja læra. Pedro [Hipolito] var góður þjálfari en ég held að hann hafi drepið leikmennina andlega með öllum þessum æfingum.“
,,Ég stend við það að þetta lið er betra en Grindavík. Ef við hefðum verið í sömu stöðu og Grindavík þá hefðum við haldið okkar sæti. Þessir leikmenn voru bara andlega búnir.“
Gary elskaði að spila með ÍBV í sumar og þakkar liðsfélögum sínum fyrir að hjálpa sér við markaskorun.
Einnig kennir Gary umdeildri bátsferð um það að liðið hafi fengið sex mörk á sig gegn FH í 6-4 tapi.
,,Þegar kom að gæðunum þá eru þeir ekki þeir bestu á landinu en nógu góðir til að halda sér uppi og ég stend við það. Ég skoraði ekki 12 mörk fyrir ÍBV sjálfur, þeir hjálpuðu mér. Við fengum mörg mörk á okkur en ástæðan fyrir því að við fengum sex á okkur gegn FH var því bátsferðin var þrír klukkutímar.“
,,Við höfðum ekki fengið sex á okkur allt tímabilið. Við fengum fimm á okkur gegn Val en Valur á heimavelli er annað. Það var frábært að koma þangað.“
,,Það var skemmtilegt að vera með Jonathan Franks og ensku strákunum, mér leið eins og ég þyrfti að halda ákveðnu striki svo aðrir gætu fylgt. Svo komu Andri og Jeffsy inn. Þeir sögðu mér að ég væri mikilvægur og að allir myndu fylgja mér.“
Sindri Snær Magnússon kvaddi ÍBV í sumar en hann var fyrirliði liðsins og var bandið laust í kjölfarið.
Gary er af flestum talinn besti og mikilvægasti leikmaður ÍBV en hann vildi þó ekki taka við bandinu.
Hann þakkar einnig sínum félögum fyrir að hjálpa sér að vinna gullskóinn. Gary skoraði 14 mörk á tímabilinu og 12 af þeim voru fyrir ÍBV. Hann segir þetta vera bestu ákvörðun ferilsins.
,,Ég vildi ekki fá fyrirliðabandið eftir brottför Sindra. Það hefði verið gaman en Víðir fékk bandið og ég var hæstánægður með það. Hann er uppalinn á Eyjunni og hann sér um heimamenn og ég um útlendingana. Það gekk vel.“
,,Ég elska allt við Eyjuna. Ég vann ekki gullskóinn upp á eigin spýtur, þessir leikmenn unnu gullskóinn fyrir mig. Fólk heldur að ég sé bara að segja þetta en þeir stöðvuðu bæði Hilmar Árna og Thomas Mikkelsen. Það gaf mér möguleika.“
,,Þetta er góður hópur og þeir vilja allir læra og gera vel. Það eru góðir krakkar á eyjunni sem vilja bæta sig. Ég held að þetta sé besta ákvörðun sem ég hef tekið á fótboltaferlinum, að fara til ÍBV. Það náði því besta úr mér.“
,,Ég mun aldrei tala niður til liðsfélagana. Ég er hluti af þessu liði og fell með þeim. Þeir fóru ekki niður og ég var bara þarna, ég fór niður sem hluti af liðinu. Við vorum enn á lífi þegar ég mætti og ég hefði getað bjargað liðinu. Þetta fall fer á ferilskránna og ég tek því. Ég tók þessa ákvörðun.“
Það voru fleiri lið sem reyndu að fá Gary en hann hlær að þeirri umræðu að hann hafi bara samið við ÍBV til að skora fleiri mörk.
Gary segist vera hluti af liði ÍBV og reyndi allt sem hann gat til að bjarga liðinu frá falli.
,,Ég þurfti ekki að semja við botnliðið, ég gat samið við annað lið. Þetta var eina liðið sem gat náð því besta úr mér og það virkaði. Ég kom öllum á óvart sem var frábært.“
,,Fólk segir það en um leið og við féllum þá fengum við frelsi. Ef við hefðum fallið gegn ÍA þá hefðum við samt haldið áfram að skora mörg mörk. Starfið mitt er að skora mörk. ÍBV borgar mér til að skora mörk.“
,,Ég gat ekki bjargað þeim en fólk segir að ég sé ekki liðsspilari. Fólk segir að ég hafi samið við ÍBV bara til að skora mörk? Veistu hversu erfitt það er og hversu heimskulegt það hljómar? Gary samdi við botnliðið þar sem markahæsti maðurinn er með tvö mörk í 12 leikjum, þeir skapa ekki mörg færi en hann fer bara þangað til að skora mörk. Það er klikkun og kjaftæði. Ég vildi hjálpa liðinu að halda sínu sæti og reyndi það.“
,,Í síðustu leikjunum, gegn FH þá var eina markmið mitt og liðsins að vinna gullskóinn fyrir mig. Þeir voru með mér í þessu, þeir vildu sjá mig vinna. Fólk segir að ég hafi fagnað þessu einn. Ég fór beint aftur til Vestmannaeyja því þeir vildu að ég kæmi með skóinn þangað. Ég hefði getað verið áfram í Reykjavík og sagt að þetta væri minn skór.“
,,Ég tók bát klukkan 11:15 og fagnaði með þeim á eyjunni, við fögnuðum saman. Þetta er skór fyrir ÍBV. Ég var leikmaður ÍBV þegar ég vann þessi verðlaun. Já við féllum en það var langt síðan. Í lok tímabils þá var hægt að fagna einhverju, þeir voru með markahæsta mann landsins.“
Gary ákvað svo að skrifa undir lengri samning við ÍBV þó að það væri ljóst að liðið væri á leið niður.
Hann sér alls ekki eftir þeirri ákvörðun og segir samninginn vera trygging fyrir framtíðina.
,,Þér þarf að líða vel í fótbolta. Ef ég skrifa ekki undir samninginn við ÍBV og fótbrotna svo, þá fæ ég ekki borgað á næsta ári. Þá verð ég samingslaus.“
,,Þeir buðu mér góðan samning til að spila í Inkasso-deildinni og hjálpa þeim að komast upp. Ef ég væri ekki liðsmaður af hverju myndi ég skrifa undir þennan samning? Heldurðu að ég sé að fara í Inkasso til að skora 30 mörk fyrir sjálfan mig? Ég skrifa undir því þetta var trygging fyrir mig.“
,,Ég er samningsbundinn út næstu leiktíð. Fyrri samningurinn var þangað til í janúar og tæknilega hefði ég getað samið við hvaða lið sem er og fengið borgað þar til í janúar.“
,,Þetta snýst um hvernig þeir komu fram við mig, þeir gerðu mér mjög auðvelt fyrir, ég nýt þess að búa þarna, sumarið er frábært þarna og af hverju ekki að vera áfram? Hélt ég að ég myndi vinna gullskóinn? Nei, svo sannarlega ekki. Það var enginn sem hélt það.“
,,Ég er hluti af þessu og ég sé ekki eftir því að hafa skrifað undir. Ef ég er hjá ÍBV á næstu leiktíð þá er það ekkert vesen, ég geri mitt besta til að koma okkur upp. Hvatningin verður örugglega meiri því ég þarf að koma liðinu upp til að fá framlengingu! Fólk skilur það ekki en ég sé alls ekki eftir þessu.“
Það eru þó ekki 100 prósent líkur á því að Gary verði áfram í ÍBV en önnur lið gætu reynt að næla í hann.
Hann ætlar þó ekki að búa til neitt vesen varðandi félagaskipti og gerir nákvæmlega það sem ÍBV vill að hann geri.
,,Ef það er eitthvað lið sem vill mig núna þá kaupa þeir mig. Ef ekki þá verð ég áfram hjá ÍBV. Þannig er það. Ég mun ekki reyna að neyða félagið til að hleypa mér burt. Ef ég fæ gott tilboð erlendis frá, ég vil fá eins vel borgað og hægt er, þetta er stuttur ferill. Ef einhver kemur með þannig tilboð þá getum við fengið okkur sæti og rætt málin.“
,,Ég á sex eða sjö ár eftir á ferlinum. Ef ekkert gerist þá verð ég áfram hjá ÍBV, ef þeir vilja ekki selja mig til félags hér á landi þá er það þeirra ákvörðun. Ef Víkingur eða ÍA kemur með gott tilboð og þeir vilja að ég fari þá geri ég það. Ég mun ekki heimta þess að vera seldur.“