Gary Martin, framherji ÍBV, er markakóngur Íslands árið 2019 en hann skoraði tvennu í tapi gegn Stjörnunni í dag.
Gary kom til ÍBV fyrr í sumar og hefur nú skorað 10 mörk í síðustu sex leikjum sínum sem er magnað.
Gary endar tímabilið með 14 mörk en fjórir aðrir leikmenn voru fyrir neðan hann með 13.
Englendingurinn ræddi við Fótbolta.net eftir leikinn í dag og var himinlifandi með árangurinn.
,,Ég skora bara mörk, ég veit ekki hvað gerðist. Svona er fótboltinn. Ég er himinlifandi,“ sagði Gary við Fótbolta.net.
,,Fólk talaði um að það væri slæmt að semja við ÍBV en eins og ég sagði í sumar þá samdi ég við þá fyrir áskorunina. Þetta náði því besta úr mér. Þetta var erfiðasta áskorunin.“
,,Ég hélt þeim ekki uppi, ég hefði frekar viljað það en að vinna Gullskóinn. Það hefði verið klikkað. Ég hef ekki skemmt mér eins mikið á velli í langan tíma.“
Gary telur að hann muni spila fyrir ÍBV í næst efstu deild að ári og viðurkennir að hann hafi hugsað endalaust um að vinna gullskóinn fyrir leikinn í dag.
,,Það getur allt gerst en eins og staðan er þá mun ég spila fyrir ÍBV í Inkasso-deildinni.“
,,Það eina sem ég hugsaði fyrir leikinn var að vinna gullskóinn. Ég kíkti á aðrar stöður í hálfleik.“
,,Það voru tveir Englendingar í stúkunni sem létu mig vita hvað væri í gangi. Ég vildi vinna þetta til að sokka ykkur alla.“
,,Sumarið var ekki skemmtilegt fyrir mig. Nafnið mitt var óhreinkað í fjölmiðlum með sögum sem voru ekki sannar. Óli Jó tók þessa ákvörðun og nafnið mitt var dregið inn í þetta. Ég vann gullskóinn vinur, ekki hafa áhyggjur af leikkerfinu.“