

Valur hefur ákveðið að láta Ólaf Jóhannesson fara úr starfi sem þjálfari liðsins, félagið hefur staðfest að rætt sé við aðra menn.
Heimir Guðjónsson er lang líklegastur til að taka við og heimildarmenn 433.is, tala um að það sé svo gott sem klárt. Heimir er að klára annað tímabil sitt með HB í Færeyjum og vill koma heima.
Ólafur fær því rauða spjaldið eftir fimm ár hjá Val, hann vann fjóra stóra titla fyrstu fjögur árin. Eitt slæmt tímabil kostar hann starfið.
,,Flest bendir til þess að Ólafur Jóhannesson yfirgefi brúna á Hlíðarenda og fái þar með kaldar kveðjur frá Valsmönnum þrátt fyrir góða uppskeru á undanförnum árum. Undir stjórn Óla hefur Valur orðið Íslandsmeistari í tvígang og bikarmeistari jafn oft,“ sagði Guðmundur Hilmarsson í bakverðinum í Morgunblaðinu í dag.
,,Tímabilið hjá Val í ár hefur verið skrautlegt í meira lagi og árangurinn vægast sagt slakur. Að sjálfsögðu ber þjálfarinn mikla ábyrgð á gengi liðsins og leikmannakaupum fyrir tímabilið, sem reyndust slæm í flestum tilfellum.“
,,Eftir eitt slakt tímabil hefði ég haldið að Óli Jó ætti innistæðu fyrir því að halda áfram en forráðamenn Vals virðast vera á þeirri skoðun að tími hans sé liðinn. Þeir hafa þegar rætt við Heimi Guðjónsson, þjálfara HB í Færeyjum, og hver veit nema hann feti í fótspor síns gamla lærimeistara eins og hann gerði hjá FH.“