Gunnar Heiðar Þorvaldsson, fyrrum framherji ÍBV hefur ekki fengið neitt símtal þess efnis að taka við karlaliði félagsins. ÍBV leitar að nýjum þjálfara en Gunnar virðist ekki á lista. Hann ræðir málið við Morgunblaðið.
Gunnar hefur verið orðaður við þjálfarastöðuna í Eyjum en lítil fótur virðist vera fyrir þeim sögusögnum. ÍBV er fallið úr Pepsi Max-deild karla.
,,Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá veit ég satt best að segja ekki hvaðan þessar sögusagnir koma. Það hefur aldrei verið haft samband við mig af hálfu forráðamanna ÍBV og ég held í alvörunni að þessi umræða hafi sprottið upp eftir einhverjar fáránlegar umræður sem áttu sér stað í brekkunni á Þjóðhátið. Þaðan hefur aldrei komið áreiðanleg heimild,“ sagði Gunnar Heiðar nokkur reiður við Morgunblaðið.
Umræðan um endurkomu Gunnars Heiðars byrjaði í hinum vinsæla hlaðvarpsþætti, Dr. Football. Hann kallar eftir meiri metnaði í fréttamennsku.
„Með fullri virðingu fyrir ykkur blaðamönnum þá er sé ég ekki mikinn metnað í því að pikka bara upp einhver ummæli í einhverjum hlaðvarpsþætti eða sem einhver skrifar á Twitter og ætla svo að halda því fram að það sé einhver frétt. Í mínu tilfelli þá var nafn mitt dregið inn í einhverja umræðu og sá eini sem hefur þurft að svara fyrir þetta er ég sjálfur. Það hefur verið leiðinlegt fyrir bæði mig og fjölskyldu mína að svara fyrir þetta á meðan þeir sem hentu þessu fram á sínum tíma komast í raun bara upp með að bulla og bulla án þess að þurfa svara eitthvað sérstaklega fyrir það. Þetta er ekki merkileg fréttamennska finnst mér og í raun bara óábyrgt,“ sagði Gunnar Heiðar í samtali við mbl.is.