Lionel Messi, leikmaður Barcelona, er tilbúinn að taka boði Cristiano Ronaldo sem bauð Argentínumanninum í mat á dögunum.
Ronaldo var á verðlaunaafhendingu UEFA er hann sagðist vera meira en reiðubúinn að kíkja í mat með Messi.
Um er að ræða tvo leikmenn sem hafa lengi verið taldir þeir bestu í heiminum og af góðri ástæðu.
Messi var spurður út í þetta boð Ronaldo í gær en þó að þeir séu ekki vinir þá myndi Messi glaðlega hitta Ronaldo á veitingastað.
,,Það er ekkert vandamál. Ég hef alltaf sagt það að það séu engin vandamál okkar á milli,“ sagði Messi um boð Ronaldo.
,,Við erum kannski ekki vinir því við höfum aldrei verið í sama búningsklefa en ég hitti hann alltaf á verðlaunahátíðum.“
,,Við ræddum saman í nokkuð langan tíma á síðustu hátíð. Ég veit ekki hvort að það endi með kvöldmat saman en kannski hittumst við. Augljóslega myndi ég taka boðinu.“