,,Þetta er mjög kærkomið, þetta hefur ekki gengið eins og við hefðum óskað,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Vals og Íslands um stöðuna í Pepsi Max-deild karla. Valur hefur ekki staðið undir væntingum í sumar með besta markvörð Íslands á milli stanganna.
Valur tapaði gegn ÍBV í Pepsi Max-deildinni á sunnudag, slakasta lið deildarinnar setur Val í erfiða stöðu varðandi Evrópusæti.
,,Síðasti leikur var sérstaklega þungur, það er kærkomið að koma hérna og anda að sér fersku lofti. Takast á við nýtt verkefni.“
Íslenska landsliðið er í dauðafæri á að komast á sitt þriðja stórmót í röð, liðið mætir Moldóvu og Albaníu í undankeppni EM. Fyrri leikurinn á Laugardalsvelli á laugardag.
,,Við erum á fínum stað, gerðum frábærlega í sumar. Það er mikill andi og trú að við séum að fara að ná okkar markmiðum, tveir sterkir sigrar í sumar sem minntu okkur á hvað við erum góðir, hvað það er gaman þegar gengur vel.“
Gengi Vals hefur ekki haft áhrif á sjálfstraust Hannesar. ,,Það hefur ekki gert það, ég er orðinn sjóaður í því að skilja við krísu aðstæður í klúbbum og koma svo með landsliðinu og standa vaktina hér, og vinna leiki. Ég er öllu vanur, ég skil við það.“
Viðtalið við Hannes er í heild hér að neðan.