

Andri Yrkill Valsson, blaðamaður á Morgunblaðinu stingur niður penna í blaði dagsins og kvartar undan því, hversu lítinn stuðnings íslenska kvennalandsliðið fær.
Stelpurnar hófu leik í undankeppni EM í gær þegar þær unnu 4-1 sigur á Ungverjalandi, á Laugardalsvelli. Aðeins um 2 þúsund áhorfendur voru á vellinum sem tekur tæplega 10 þúsund. Um næstu helgi mætir karlalandsliðið Moldóvu á fullum velli. Andri á erfitt með að skilja þetta.
,,Ég hef í auknum mæli farið á völlinn í sumar sem áhorfandi en ekki sem hluti af vinnunni. Sú var til að mynda raunin í gærkvöld þegar íslenska kvennalandsliðið vann flottan sigur á Ungverjalandi í fyrsta leik í nýrri undankeppni næsta stórmóts sem er Evrópumótið 2021,“ skrifar Andri í Morgunblaðið í dag.
Aðeins var setið á litlu svæði í stærri stúkunni en stúkan á móti var alveg tóm.
,,Þar sem ég sat í miðri stúkunni og horfði á leikinn blasti alltaf við mér galtóm stúkan hinum megin við völlinn. Stúkan sem einnig er slegist um að sitja í þegar karlalandsliðið er að spila sína leiki. Á meðan var stúkan sem áhorfendur sátu í með galtómum hólfum hvoru á sínum endanum.“

Andri skilur ekki af hverju það er slegist um miða á leikina hjá strákunum en ekki stelpunum.
,,Af hverju er slegist um miða á karlaleikina en ekki kvennaleikina? Af hverju mæta tæplega níu þúsund manns á karlaleik gegn Albaníu en rúmlega tvö þúsund á kvennaleik gegn Ungverjalandi?.“
,,Ég veit ekki svarið en klóra mér í hausnum. Ekki síst vegna þess að einstaklingarnir í kvennalandsliðinu gætu ekki verið betri fyrirmyndir þótt þær legðu sig fram við það. Þær hafa alltaf tíma til þess að spjalla við unga iðkendur og opin æfing landsliðsins í vikunni var gott dæmi um það. Með því er ég ekki að gera lítið úr karlaliðinu, heldur undirstrika að stelpurnar eiga enn meiri stuðning skilinn.“
