Gísli Marteinn Baldursson, einn þekktasti sjónvarpsmaður þjóðarinnar, telur ekki óraunsætt að höfuðborg Íslands komist af með almenningssamgöngum á lestarteinum. Gísli var gestur í Milliveginum, hlaðvarpsþætti í umsjón þeirra Arnórs Sveins Aðalsteinssonar og Bergsveins Ólafssonar.
Gísli skilgreinir sig sem „urbanista“ og hefur mikla ástríðu fyrir því hvernig samfélög eru uppsett og hefur áhrif á okkar líf. Í þættinum talaði hann meðal annars um bíllausan lífsstíl og hvernig vel skipulagðar borgir geta skipt sköpum fyrir lýðsheilsu fólks.
„Hvernig hefur það áhrif á líf okkar hvernig borgin er skipulögð?“ er Gísli spurður, en hann svarar:
„Þetta hefur áhrif á það hvort við séum feit eða mjó, hvort við séum hamingjusöm eða óhamingjusöm, hvort börnin okkar eigi vini, hvort það séu skothríðir í skólum eins og í Bandaríkjunum – svo ég hljómi smá dramatískur. Góð hverfi geta haft áhrif á þetta allt saman, alveg eins og illa heppnuð hverfi geta valdið óhamingju, lýðheilsuvandamálum og svo framvegis. Þetta er ekki mín skoðun, heldur er auðvelt að sýna fram á þetta í gegnum ýmsar rannsóknir.“
Gísli fullyrðir að helstu vandamál heimsins geta verið leyst af vettvangi borgarinnar. „Það er alveg sama hvaða vandamál við erum að tala um, hvort sem það eru heilsufarsleg vandamál, umhverfisvandamál eða félagsleg vandamál. Rétt og gott borgarskipulag getur lagt ótrúlega mikið af mörkum til að færa þetta í réttari farveg.“
Gísli skorar á ríkið til að bæta almenningssamgöngur til að samfélagið fúnkeri. Þá ræðir hann Borgarlínuna og segir að hún hefði frekar átt að vera á teinum. „Eins og ég hef lengi sagt, þá er þetta strætó með varalit. Ég ákvað að vera ekkert rosalega leiðinlegur því þetta sem er að fara að koma er miklu betra en það sem við höfum.“
En af hverju hafa Borgarlínuna á teinum?
„Við erum næstum því borgríki og þess vegna þurfa almenningssamgöngurnar að vera góðar,“ segir Gísli.
„Ég held að það verði meiri leikbreytir (e. game changer) að hafa lestir hér á landi, ekki bara betri valkostur heldur en strætó, heldur raunverulega þannig að miklu fleiri myndu segja „þetta er það mikið upgrade fyrir mig“. Sumir verða líka bílveikir í strætó, hann höktir miklu meira en allar þessar léttlestir. Það eru léttlestir í öllum borgarsvæðum þar sem eru um tvö hundruð þúsund á borgarsvæðinu, þannig að við værum ekkert fáránlega lítil í þetta. Og við erum rúmlega tvö hundruð þúsund á höfuðborgarsvæðinu.“