Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, kvartaði yfir dómgæslunni eftir leik gegn Val á Akranesi í kvöld.
Valur vann 2-1 útisigur á ÍA en sigurmark liðsins kom af vítapunktinum eftir að Arnar Már Guðjónsson hafði verið dæmdur brotlegur.
Jói Kalli var eki ánægður með þann vítaspyrnudóm og segir að Valsararnir hafi fengið gjöf frá dómara leiksins.
,,Mér fannst Valsararnir fá tvö gefins mörk, við gáfum þeim fyrsta og svo fengu þeir eitthvað víti upp úr klafsi sem mér fannst aldrei vera víti,“ sagði Jói Kalli við Stöð 2 Sport.
,,Mér finnst alltof auðvelt fyrir dómarana að dæma víti fyrir þessi svokölluðu stóru lið landsins og það er virkilega að fara í taugarnar á mér.“
,,Eftir þessa gjöf sem við réttum Völsurum er þeir komust yfir þá komum við öflugir til baka og jöfnuðum verðskuldað. Það var kraftur í okkur allan tímann og ég er ekki sáttur við þessi úrslit.“