Megan Rapinoe er nafn sem margir eru farnir að kannast við en hún leikur með bandaríska kvennalandsliðinu.
Rapinoe hefur verið frábær fyrir Bandaríkin á HM kvenna en liðið leikur í úrslitum gegn Hollandi á morgun.
Rapinoe er alls enginn aðdáandi Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og ætlar ekki að mæta í Hvíta húsið er liðinu tekst að vinna mótið.
Það er venjan að sigurliðinu sé boðið í heimsókn í Hvíta húsið en Rapinoe telur að það séu ekki margir leikmenn sem muni láta sjá sig.
,,Ég veit ekki hvort við förum. Ég hef ekki talað við þær allar um þetta,“ sagði Rapinoe í dag.
,,Ég mun ekki fara, Ali Krieger mun ekki fara og ég býst við því að það séu ekki margar, ef einhverjar sem munu fara.“
Trump svaraði sjálfur Rapinoe á dögunum og sagðist vera mikill aðdáandi kvennaliðsins og að hún ætti að einbeita sér að því að vinna mótið fyrst, frekar en að tjá sig.