Mikael Nikulásson, knattspyrnusérfræðingur, var reiður í lok hlaðvarpsþáttarins Dr. Football í gær.
Mikael er þekktur fyrir það að liggja ekki á skoðunum sínum en hann er KR-ingur og mætir reglulega á leiki.
Hann er hins vegar óánægður með umgjörðina á KR-vellinum og það sem aðdáendur þurfa að sætta sig við.
Mikael fór á leik KR og Vals nýlega og segir að aðstaðan fyrir stuðningsmenn sé hreint út sagt ömurleg.
,,Græiði veitingasöluna þarna í KR heimilinu. Ég fór þarna um daginn á KR – Valur þar sem voru kannski 1800 manns,“ sagði Mikael.
,,Það voru tvær lúgur opnar í hálfleik fyrir 1800 manns. Seinni hálfleikurinn var byrjaður og menn voru að bíða í 50 metra langri röð eftir einum kaffibolla.“
,,Ef þetta verður svona í kvöld þá þarf KR bara að byrja að spila á Laugardalsvelli.“
,,Sem KR-ingur, það er langskemmtilegast að sitja á KR-velli. Þú ert ofan í vellinum og góð stúka og allt svoleiðis. Þú ert ekki einhvers staðar út í rassgati að horfa á gervigras og hlaupabraut.“
,,Það verður að vera aðstaða fyrir áhorfendur líka, fyrir leik og í hálfleik.“