Bayern Munchen í Þýskalandi hafði áhuga á að fá hinn efnilega Sepp van den Berg til sín í sumar.
Þessi 17 ára gamli leikmaður er genginn í raðir Liverpool en hann kemur til félagsins frá PEC Zwolle.
The Times greinir frá því að Bayern hafi reynt við Van den Berg á síðustu stundu – er hann var í læknisskoðun hjá Liverpool.
Sími umboðsmanns hans hringdi á meðan hann var í læknisskoðun á Englandi og þar fékk hann að heyra af áhuga Bayern.
Það reyndist hins vegar of seint en Liverpool borgar um 1,3 milljónir punda fyrir strákinn.
Bayern reyndi að sannfæra umboðsmann leikmannsins um að skiptin til Liverpool væru röng og að hann ætti að koma til Þýskalands.