Breiðablik er komið á toppinn í Pepsi Max-deild karla á ný eftir leik við ÍBV í tíundu umferð í dag.
Eftir að hafa lent 1-0 undir þá tóku Blikar öll völd í seinni hálfleik og unnu að lokum 3-1 sigur.
Hér má sjá það góða og slæma úr leiknum.
Plús:
Gústi Gylfa er að byggja svo skemmtilegt lið í Kópavogi. Það er orðið virkilega gaman að horfa á Blikana sem eru með gríðarlega hæfileika einstaklinga.
Það er auðvelt fyrir lið að brotna aðeins eftir að fá á sig mark snemma leiks en Blikar voru rólegir. Þeir vissu að tækifærin myndu koma og breyttu 0-1 í 3-1.
Þeir grænu voru þá nánast með öll völd á vellinum í seinni hálfleik. Gústi hefur minnt menn á að toppsætið væri í boði.
Eyjamenn byrjuðu vel og voru ferskir í byrjun. Sáu til þess að leikurinn yrði sú skemmtun sem hann var.
Mínus:
Fyrsta mark Blika var brandari. ÍBV ákvað að gefa þeim jöfnunarmark á silfurfati. Hvar er hausinn?
ÍBV spilaði oft fínasta bolta í fyrri hálfleik en hvað í … gerðist í seinni? Það var eins og þetta jöfnunarmark hefði bara eyðilagt liðið algjörlega.
Sorrí Eyjamenn en þetta er ekki að virka. Pedro getur ekki fengið mikið fleiri sénsa, ÍBV á í mikilli hættu á að falla niður um deild.
Það er eitthvað sem segir mér að einn enskur framherji hafi horft undrandi á þennan leik. Hvað ætli Gary Martin sé að hugsa?
Einstaklingsgæðin eru svo miklu meiri í Blikaliðinu, það er ekki hægt að bera þetta saman. Lið í allt, allt öðrum klassa.