Kolbeinn Sigþórsson er mættur aftur í íslenska landsliðið, þessi magnaði framherji virðist vera að komast á fulla ferð eftir erfiða tíma. Það eru í raun tæp þrjú ár síðan að Kolbeinn var í jafn góðu formi.
Hann gekk í raðir AIK í Svíþjóð í mars og hefur síðan þá náð að æfa vel, hann hefur tekið þátt í tveimur leikjum. Áður en Kolbeinn fór að meiðast árið 2016 þá var hann einn besti leikmaður íslenska landsliðsins.
,,Það var mjög gott að spila um helgina, ég var ekki viss hvort ég myndi ná að spila. Seinasta vika gekk mjög vel, ég náði að æfa 100 prósent. Ég er mættur aftur, vonandi er þetta upp á við núna,“ sagði Kolbeinn við 433.is í dag.
Kolbeinn lék 25 mínútur með AIK um helgina en hann hafði verið frá í þrjár vikur eftir fyrsta leik sinn með félaginu.
,,Ég tognaði létta aftan í læri, það var ekki mikið. Tók aðeins lengri tíma en búist var við, ég var varkárari til að það myndi ekkert gerasts aftur.“
Kolbeinn er í góðu líkamlegu formi, hann þarf að haldast heill til að vinna upp leikæfingu.
,,Ég er búinn að æfa vel með liðinu í tvo mánuði, fá mínútur. Standið á mér er mun betra en þegar ég var síðast með landsliðinu, það eru jákvæðir hlutir að gerast hjá mér. Ég horfi spenntur á framhaldið.“
Valið á Kolbeini er að einhverju leyti umdeilt, hann hefur lítið spilað síðustu ár. Erik Hamren, landsliðsþjálfari vonast til að fá gamla, góða Kolbein, sem íslenska þjóðin þekkir svo vel.
,,Ég hef bullandi trú á sjálfum mér líka, ég veit að ég get hjálpað liðinu. Þeir hafa sýnt að þeir hafa mikla trú á mér, hafa verið að velja. Það er frábært fyrir mig og ég get vonandi sýnt það og gefið til baka.“
Viðtalið við Kolbein er í heild hér að neðan.