Fréttablaðið sagði frá því í vikunni að Gary Martin, myndi ganga í raðir ÍBV á næstunni. Hann gerði starfslokasamning við Val á dögunum, hann gæti spilað áfram á Íslandi.
Rætt var um málefni Gary Martin í nýjasta þætti af hlaðvarpsþættinum, Steve Dagskrá. ,,Af hverju ætti Gary Martin að vilja fara þangað? Fyrir utan að ná Þjóðhátíð,“ sagði Andri Geir Gunnarsson, annar af þeim sem stjórnar þættinum.
Gary hefði getað yfirgefið Val í upphafi mánaðar og farið til KA. Hann vildi ekki leggja ferðalagið á kærustu sína, sagði hann við Vísir.is.
,,Ég trúi því ekki, fyrir utan að kærastan hans þarf að ferðast með bát. Það er ekki á hana leggjandi,“ sagði Andri og átti þar við Herjólf.
Andri telur að Gary fari ekki til Eyja, hann velji frekar að vera í bænum fyrir minni pening.
,,Hver er gulrótin? Er ÍBV að fá hann fyrir þennan pening, ég held að Gary Martin vilji frekar vera í bænum. Segjum að Stjarnan eða Fylkir, eða eitthvað annað lið, við erum bara með 800 þúsund á mánuði. ÍBV með 1,2 milljón. Ég held að hann tæki það frekar.“