Guðjón Þórðarson er að gera magnaða hluti í Færeyjum, margir töldu að Guðjón myndi aldrei koma til baka í boltanum. Hann hafði ekki fengið starf á Íslandi í sex ár þegar NSÍ Runavík, í Færeyjum, bauð honum starf.
Guðjón hefur byrjað frábærlega með NSÍ, liðið situr í öðru sæti Betri deildarinnar, sem er efsta deild þar í landi. Liðið hefur unnið átta af fyrstu ellefu leikjum sínum.
„Deildin hér er sterkari en ég bjóst við að mörgu leyti. Liðin sem eru best í deildinni eru betri en ég átti von á og það eru fleiri góðir fótboltamenn hér í Færeyjum en ég átti von á. Neðri helmingurinn af deildinni er veikari en hér eru 4-5 mjög góð lið,“ sagði Guðjón eftir 3-0 á Skála í gær. Viðtalið birtist á RÚV.
Ljóst er að ef fram heldur sem horfir þá munu Guðjón og félagar berjast um sigur í deildinni, það væri afrek enda NSÍ aðeins einu sinni unnið deildina.
„Hér horfum við ekki of langt fram í tímann. Eina sem við vitum um er það sem við erum að gera í dag. Á morgun hefst undirbúningur fyrir næsta leik. Endurheimtin byrjar á morgun og við tölum ekki um annað en næsta leik og við ætlum okkur að vinna þrjú stig næstu helgi,“
Endurkoma Guðjón hefur vakið athygli, einn besti þjálfari í sögu Íslands er að komast aftur á kortið.
„Það er mjög góð tilfinning að vera byrjaður aftur að þjálfa og það er gaman í fótboltanum. Ég vissi ekki hvort að ég myndi koma inn í fótbolta aftur. En þetta er mjög gaman og ég er í góðum félagsskap hér í Færeyjum. Ég nýt þess að vera í fótboltanum aftur,“