Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals þurfti að fara meiddur af velli í fyrri hálfleik gegn Víkingi á föstudag. Haukur sem er leiðtogi liðsins gat því ekki hjálpað til eftir 20 mínútu leiksins.
Haukur var að reyna að bjarga marki þegar hann renndi sér eftir gervigrasinu á Hlíðarenda. ,,Ég fæ að vita betur í dag hvað þetta er þegar ég hitt Einar sjúkraþjálfara,“ sagði Haukur Páll í samtali við 433.is í dag.
Haukur reyndi að renna sér fyrir skot Nikolaj Hansen sem skoraði fyrsta mark leiksins í 3-3 jafntefli.
,,Þetta var stórfurðulegt, ég fór í þessa tæklingu og fann ekki fyrir neinu. Um leið og ég stóð svo upp finn ég tak framan í lærinu. Það sem er gott í dag er að ég ekki haltur eða neitt þannig.“
Valur mætir FH í Mjólkurbikarnum á miðvikudag, útilokað er að Haukur nái þeim leik. ,,Mér finnst persónulega full stutt í þennan bikarleik, það er ekkert vit í því að spila ef það hefur meiri afleiðingar í framhaldinu.“