Það verður hart tekist á í Manchester í kvöld þegar City heimsækir United í mikilvægum leik fyrir báða aðila. United reynir að ná Meistaradeildarsæti en City berst um sigur í deildinni.
City má ekki missa stig þar sem Liverpool er á flugi, tapi liðið stigum í kvöld er Liverpool komið með níu fingur á þann stóra.
Það er hiti í mannskapnum fyrir leikinn og Ole Gunnar Solskjær setti olíu á eldinn í gær. ,,Við verðum að vera klárir, þeir sparka fast í andstæðinga sína,“ sagði Solskjær.
Lið, Pep Guardiola eru ekki þekkt fyrir að leika grófan leik og var hann pirraður út í Solskjær.
,,Sagði hann þetta? Við erum iðulega með boltann 65-70 prósent, hvernig gengur það upp?,“ sagði Guardiola og var pirraður.
,,Ég hef aldrei undirbúið leik á mínum tíu ára ferli sem þjálfari, og hugsað svona. Leikmenn sem ég hef þjálfað geta staðfest það.“
,,Ég hugsa um marga hluti, en ekki þetta. Ég hugsa um hvernig við vinnum United. Þið getið rætt þetta mál aftur við Solskjær eftir leik.“