Manchester United er úr leik í Meistaradeild Evrópu eftir leik við spænska stórliðið Barcelona í gær. Verkefni United var alltaf að fara verða erfitt í gær en liðið tapaði fyrri leiknum 1-0 á heimavelli.
Lionel Messi var í stuði í leiknum og skoraði tvö mörk fyrir heimamenn sem unnu sannfærandi 3-0 sigur. Philippe Coutinho bætti við þriðja marki Börsunga sem unnu einvígið samanlagt, 4-0.
Solskjær tók tímabundið við United í desember en var svo ráðinn til framtíðar í síðasta mánuði. ,,VIð vitum að það er mikið verk að vinna,“ sagði Solskjær eftir leik.
Hann segir United þurfa fimm ár til að komast í fremstu röð aftur. ,,Ég hef alla tíð sagt að þetta breytist ekki á einni nóttu, næstu fimm ár eru mikilvægt til að komast í gæðaflokk Barcelona.“
,,Við erum byrjaðir í þessari vinnu, við höfum rætt við leikmennina. Við verðum að skapa umhverfi, þar sem hugarfarið er í heimsklassa á hverjum degi.“
,,Við erum með marga góða leikmenn, til að vinna með. Það þarf að byggja upp, þetta byrjar með þjálfurum og leikmönnum. Svo bætum við einum eða tveimur við í sumar.“