

Liverpool 2-1 Tottenham
1-0 Roberto Firmino(16′)
1-1 Lucas Moura(70′)
2-1 Toby Alderweireld(sjálfsmark, 90′)
Það fór fram frábær leikur í ensku úrvalsdeildinni í dag er lið Tottenham heimsótti Liverpool á Anfield.
Það var mikið undir fyrir viðureign dagsins en Liverpool er í baráttu um titilinn og Tottenham reynir við Meistaradeildarsæti.
Það var Liverpool sem komst yfir í leik dagsins en Roberto Firmino skoraði í fyrri hálfleik með góðum skalla.
Staðan var 1-0 í hálfleik en í síðari hálfleik jafnaði Lucas Moura fyrir Tottenham eftir mjög laglega sókn.
Það leit út fyrir að jafntefli yrði niðurstaðan alveg þar til á lokamínútu leiksins er sigurmarkið kom á Anfield.
Toby Alderweireld varð þá fyrir því óláni að skora sjálfsmark fyrir Tottenham en Hugo Lloris hafði varið skalla Mohamed Salah sem hrökk til Alderweireld sem náði ekki að bregðast við.
Liverpool fer því aftur á topp deildarinnar eftir sigurinn og er einu stigi á undan Manchester City sem á þó leik til góða.