„Fyrst og fremst hlakka ég til að takast á við fótboltann á nýjan leik,“ sagði Guðjón Þórðarson, þjálfari NSÍ Runavík sem hefur í fyrsta sinn í lengri tíma rætt við íslenska fjölmiðla. Guðjón er í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í dag.
Guðjón fékk sitt fyrsta starf í fótboltanum á dögunum í sex ár, þegar NSÍ réð hann til starfa í úrvalseildinni í Færeyjum. Guðjón byrjar með stæl og vann fyrsta leikinn í deildinni.
„Fótboltinn er alls staðar eins í grunninn. Það er mikil áskorun að takast á við þetta verkefni,“ sagði Guðjón sem elskar það að vera mættur aftur í boltann.
„Ég fann strax löngun til að komast í boltann aftur. Mér fannst ég eiga eitthvað eftir sem þjálfari. Í gamni og alvöru er stundum sagt að ekkert komi í staðinn fyrir lyktina úr búningsklefanum.“
Guðjón er einn reyndasti þjálfari Íslands og var afar sigursæll framan af sínum ferli hjá NSÍ er krafa gerð á árangur.
„Pressan er ekkert minni hér en annars staðar. Það á að gefa ungum mönnum tækifæri en á sama tíma vinna alla leiki. Maður verður að standa í fæturna. Tímabilið er langt og strangt. Lítið má út af bregða í fámennum hóp ef einn, tveir eða þrír leikmenn meiðast. Þess vegna eru stærri félögin betur undir það búin þar sem þau hafa úr meiri peningum að spila til þess að bakka upp sína hópa ef eitthvað bregður út af,“ sagði Guðjón við Morgunblaðið