Markmaðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson kom við sögu hjá liði Brentford í fyrsta sinn í dag.
Brentford mætti Middlesbrough á útivelli í ensku Championship-deildinni og vann magnaðan 2-1 sigur.
Brentford hefur verið að spila frábærlega undanfarið og lyfti sér upp í 12. sæti deildarinnar.
Patrik byrjaði leikinn á bekknum í dag en var skipt inná á 75. mínútu er staðan var 2-1.
Daniel Bentley, aðalmarkmaður Brentford, meiddist þá og þurfti Patrik að leysa hann af hólmi.
Patrik er fæddur árið 2000 og þykir mjög efnilegur og hefur nú spilað sinn fyrsta leik í næst efstu deild á Englandi.
Hann var áður á mála hjá Breiðabliki hér á landi en skrifaði undir samning við Brentford síðasta sumar.