Miðjumaðurinn geðþekki Emmanuel Frimpong hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.
Þetta staðfesti hann í dag en þessi ákvörðun Frimpong kemur mörgum á óvart enda er hann aðeins 27 ára gamall.
Frimpong er uppalinn hjá Arsenal á Englandi og lék með liðinu frá 2001 til 2011. Hans fyrsti aðalliðsleikur kom árið 2011.
Frimpong spilaði alls 16 leiki fyrir Arsenal í öllum keppnum áður en hann samdi við Barnsley árið 2014.
Undanfarin ár hefur Frimpong komið víða við og lék til að mynda í Rússlandi frá 2014 til 2017.
Hann samdi síðar við AFC Eskilstuna í Svíþjóð áður en hann gerði stuttan samning við Ermis Aradippou í Kýpur.
Frimpong þótti efnilegur leikmaður á sínum tíma og lék landsleiki fyrir yngri landslið Englands. Hann á svo að baki einn aðalliðsleik fyrir Gana.