Hólmbert Aron Friðjónsson gæti yfirgefið Álasund en framherjinn knái er eftirsóttur biti.
Félag frá Suður Kóreu hefur reynt að kaupa Hólmbert á síðustu vikum en Fótbolti.net segir frá.
Samkvæmt heimildum 433.is bauð félagið 600 þúsund dollara í Hólmbert eða rúmar 70 milljónir króna. Því var hafnað af Álasund.
Fleiri félög hafa sýnt Hólmberti áhuga sem var frábær með liðinu á síðustu leiktíð sem var hans fyrsta hjá félaginu.
Hann skoraði 19 mörk í 28 leikjum sem er frábær árangur. Ekki nóg með það þá lagði Hólmbert upp önnur fimm á liðsfélaga sína og reyndist einn allra mikilvægasti leikmaður liðsins.
Hólmbert var valinn leikmaður ársins hjá Álasund. Verðlaunin voru svo sannarlega verðskulduð en hann fékk einnig viðurkenningu frá blaðamönnum sem völdu hann bestan í deildinni.