Sam Allardyce, fyrrum landsliðsþjálfari Englands í fótbolta er á þeirri skoðun að í dag sé verið að ala upp aumingja, að ekki sé næg harka í uppeldi á börnum í dag. Hann segir þetta vonda þróun og að heimurinn fari versnandi.
Allardyce er af gamla skólanum, hann trúir því að agi sé upphaf árangurs. Hann telur að börn í dag búi við agaleysi og að þau þurfi ekki að hafa fyrir hlutunum. Hann segir þetta koma í ljós í fótboltanum í dag, leikmenn séu ekki jafn harðir af sér.
,,Við erum alltof lin í uppeldi okkar í dag, það hefur orðið til þess að knattspyrnumenn í dag sem eru að koma upp, eru ekki nógu andlega sterkir,“ sagði Stóri Sam í útvarpsviðtali í dag.
Hann segist hafa verið alinn upp á þann máta að þeir sterkustu lifi af, það sé breytt hugarfar í heiminum í dag.
,,Ég og þú Alan (Spyrill þáttarins), vorum aldir þannig upp að þeir sterkustu lifðu af. Leikmenn bera ekki virðingu fyrir þjálfaranum í dag ef þeir eru ósammála, þeir þéna svo mikið og þjálfarinn er bara rekinn.“
,,Það vantar hörku, það virðist vera svo að börn í dag séu ekki jafn öguð, heimurinn er ekki að verða betri með þessum aðferðum.“
Við spyrjum þig lesandi kær, erum við að ala upp aumngja í dag eða er Stóri Sam á villigötum?